Skoðun

Auknar tekjur og val­frelsi í Ár­borg

Bragi Bjarnason skrifar

Jafn falleg og haustin geta verið þá eru þau líka annasöm. Síðasti séns að hefja verkefni sem áttu að klárast á árinu, stutt í jólin og skipulag næsta árs hafið.

Jafnt meðal sveitarfélaga sem fyrirtækja er unnið að fjárhagsáætlun og rýnt í hvar mögulegt er að auka tekjur og hagræða. Mikilvægt er að reksturinn sé réttu megin við núllið og fjármagna þurfi sem minnst með lánsfé, einkum á tímum hárra vaxta og verðbólgu.

Auknir tekjumöguleikar fyrir sveitarfélög

Bæjarráð Árborgar samþykkti á fundi sínum þann 25. október að taka upp sérstaka gjaldskrá fyrir byggingarréttargjald í Sveitarfélaginu Árborg. Um er að ræða gjaldskrá sem byggir á samningsmarkmiðum sem bæjarstjórn samþykkti fyrr á árinu um greiðslur vegna uppbyggingar íbúða- og atvinnuhúsnæðis. Tilgangur með upptöku byggingarréttargjalds er að koma til móts við kostnað uppbyggingar nauðsynlegra innviða og þjónustu sem sveitarfélaginu ber að veita.

Í grunninn er um að ræða tvo þætti; annarsvegar er greiðsla þegar nýtingu lóðar er breytt og byggingarmagn aukið í deiliskipulagi og hinsvegar sala byggingarréttar á lóðum í eigu sveitarfélagsins. Breyting á nýtingu lóðar og byggingarmagni getur t.d. verið þegar atvinnulóð er breytt í íbúðalóðir og þegar samþykkt er að auka byggingarmagn lóða í deiliskipulagi.

Sveitarfélagið hefur síðan selt byggingarrétti á íbúða- og atvinnulóðum í stað þess að úthluta líkt og áður. Þannig er byggingaréttur boðinn út á lágmarksverði og gefst áhugasömum tækifæri til að bjóða í byggingaréttinn og fær sá lóðina sem býður hæst, með fyrirvara um að viðkomandi standist útboðsskilmála. Nú þegar eru dæmi um slíka sölu á bæði íbúða- og atvinnulóðum og byggingaréttur íbúðalóða við Móstekk á Selfossi hefur verið auglýstur. Þá stendur til að koma fleiri íbúðalóðum í öllum byggðakjörnum sveitarfélagsins í sölu fljótlega.

Aukið valfrelsi í leikskólamálum

Eitt af markmiðum Sjálfstæðisflokksins í Árborg á kjörtímabilinu var að auka valfrelsi foreldra á mismunandi hugmyndafræði við rekstur leikskóla. Nú hefur Sveitarfélagið Árborg loks samið við Hjallastefnuna leikskólar ehf. um að taka við rekstri leikskólans Árbæjar á Selfossi. Í samræmi við samninginn, sem var samþykktur í bæjarstjórn 1. nóvember sl. tók Hjallastefnan við daglegri stjórn leikskólans 2. nóvember sl. og mun svo taka við rekstrinum að fullu 1. ágúst nk. Með þessu fyrirkomulagi getur aðlögun í kjölfar breytinganna verið í góðu samstarfi við foreldra, börn og starfsmenn sem er mikilvægt þegar breytingar sem slíkar koma til framkvæmda. Eðli málsins samkvæmt hefur fólk mismunandi skoðanir á hugmyndafræðinni og rekstrarforminu. Það er að mínu mati spennandi áfangi að fá þennan nýja valmöguleika í rekstri leikskóla í sveitarfélagið en við breytingarnar verða fimm leikskólar í Árborg reknir af sveitarfélaginu og einn af einkaaðila.

Af öðrum málum í Árborg þá eru hafnar framkvæmdir við virkjun heitavatnsholu sem fannst fyrr á þessu ári utan Ölfusár fyrir neðan sláturhús SS. Áætlað er að hún verði tengd inn á dreifikerfi Selfossveitna haustið 2024 en hluti af framkvæmdunum felst í að skipta um lögn undir Ölfusárbrú. Má sjá þá vinnu í gangi þessa dagana. Að lokum vil ég hvetja íbúa og áhugasama að fylgjast með þeim fjölmörgu viðburðum sem eru á döfinni, líkt og tendrun jólaljósanna í Árborg fimmtudaginn 16. nóvember nk. en það er alltaf eitthvað að gerast í íþrótta- og menningarlífinu á svæðinu.

Höfundur er formaður bæjarráðs og oddviti sjálfstæðisflokksins í Árborg.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×