Gestirnir frá Hafnarfirði byrjuðu leikinn mun betur og leiddu með 14 stigum að loknum fyrsta leikhluta, 23-9. Heimakonur snéru taflinu þó við og unnu alla þrjá leikhlutana sem eftir voru.
Það voru því nýliðar Þórs sem unnu óvæntan fimm stiga sigur, 74-69.
Madison Sutton átti stórleik fyrir Þórsara í kvöld, en hún skoraði 23 stig og tók 16 fráköst. Lore Devos átti einnig stórgóðan leik og skoraði 21 stig, ásamt því að taka átta fráköst.
Tinna Guðrún Alexandersdóttir var atkvæðamest í liði Hauka og skoraði 19 stig. Keira Robinson skoraði 18, tók 16 fráköst og gaf níu stoðsendingar.
Á sama tíma vann Stjarnan öruggan 29 stiga sigur gegn Breiðabliki, 85-56. Stjörnukonur höfðu yfirhöndina frá upphafi til enda og var sigur þeirra aldrei í hættu.
Að lokum vann Valur öruggan tuttugu stiga sigur gegn Snæfellingum, 75-55. Valskonur leiddu með átta stigum í hálfleik og juku forskot sitt jafnt og þétt í síðari hálfleik.
Lindsey Pulliam skoraði 32 stig fyrir Val, ásamt því að taka 12 fráköst og Hildur Björg Kjartansdóttir skoraði 13 stig og tók 13 fráköst.