Þær voru fljótar að falla hvor fyrir annarri en saman deila þær aðdáun á söngkonuna Beyoncé sem og eftirlætis matnum: sushi.

Ragga segir rómantískt stefnumót vera huggulega stund án áreitis frá samfélagsmiðlum en hún lýsir Elmu sem sinni dyggustu stuðningskonu.
Ragga er nýjasti viðmælandinn í viðtalsliðnum Ást er.
Fyrsti kossinn: „Það var skemmtistaða koss.“

Uppáhalds rómantíska kvikmyndin mín er: „Walk the line er klárlega ein fallegasta ástarsaga sem ég veit um.“
Uppáhalds break up ballaðan mín er: „Irreplaceable með Beyoncé.“
Lagið okkar: „Upphafið er lag sem heitir Fine China með Future. Það er svona lag sem að minnir okkur á upphafið en er alls ekki relevant í dag. Svona almennt þá er það Brown skin girl með Beyoncé. Þegar það kemur óvænt einhver staðar þá erum við alltaf jafn glaðar og bendum á hvor aðra og segjum “heyyyy” - og öskur syngjum svo með.“
Mér finnst rómantískt stefnumót vera: „Þegar maður á huggulega stund með maka utan samfélagsmiðla og áreitis. Borða góðan mat á skemmtilegum veitingastað, tala saman um daginn og veginn og skella sér svo heim í drykk og spil. Kósy tónlist og kertaljós. Klassík.“

Maturinn: „Við elskum að fá okkur sushi.“
Fyrsta gjöfin sem ég gaf kærustunni minni: „Lykla af íbúðinni minni með afskaplega fallegum miða.“
Fyrsta gjöfin sem kærastan mín gaf mér: „Það var um páska, nokkurs konar innflutnings gjöf. Ég var að tala um hvað mig langaði í ákveðinn bol og Pyro Pet kerti. Hún græjaði það og páskaegg sem var fallega uppsett með sætum miða þar sem hún óskaði mér til hamingju með nýju íbúðina.“

Makinn minn er: „Besti vinur minn, A-Team liðsfélagi og pepparinn minn.“
Rómantískasti staður á landinu: „Við áttum voðalega fallega stund í leynilauginni rétt hjá Mývatni.“
Ást er: „Traust, samvinna, skilningur og ró. Og þegar hún eldar fyrir mig pylsupasta.“