Handbolti

Elvar Örn frá­bær í sigri Melsun­gen og Bjarki Már skil­virkur í sigri Veszprém

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Elvar Örn heldur áfram að gera það gott með Melsungen
Elvar Örn heldur áfram að gera það gott með Melsungen Vísir/Getty

Elvar Örn Jónsson átti frábæran leik í liði MT Melsungen sem lagði Rhein-Neckar Löwen örugglega í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld. Þá var Bjarki Már Elísson öflugur í sigri Veszprém í Ungverjalandi.

Melsungen hefur spilað frábærlega á leiktíðinni og hélt því áfram í kvöld þegar liðið vann sjö marka sigur á Löwen, lokatölur 30-23. Elvar Örn Jónsson skoraði sex mörk og gaf tvær stoðsendingar í liði Melsungen. Arnar Freyr Arnarsson komst ekki á blað. Ýmir Örn Gíslason var ekki í leikmannahóp Löwen að þessu sinni.

Melsungen er í 3. sæti með 16 stig að loknum 11 leikjum. Löwen er í 6. sæti með 11 stig eftir 9 leiki.

Bjarki Már Elísson spilaði aðeins fyrri hálfleik í öruggum sigri Veszprém á heimavelli gegn Budaklasz í efstu deild Ungverjalands í handbolta.

Það eru engar ýkjur að sigurinn hafi verið öruggur en munurinn var 19 mörk þegar flautað var til leiksloka, lokatölur 47-28. Bjarki Már skoraði sex mörk úr aðeins sjö skotum í leiknum. Veszprém er á toppi deildarinnar með fullt hús stiga að loknum níu leikjum.

Bjarki Már var næstum með fullkomna skotnýtingu í kvöld.Veszprém



Fleiri fréttir

Sjá meira


×