Subrahmanyam Jaishankar, utanríkisráðherra Indlands, segir að hann biði úrskurðar og liti málið alvarlegum augum.
„Við erum í sambandi við fjölskyldu mannanna og lögmannateymi og könnum alla úrlausnarmöguleika,“ sagði í yfirlýsingu frá utanríkisráðuneytinu.
Þar segir enn fremur að mennirnir hafi verið starfsmenn katarsks fyrirtækis sem heitir Al Dahra en hafi áður verið sjóliðar í indverska hernum. Mennirnir hafi verið sakaðir um að „uppljóstra viðkvæmum leyndarmálum“ en yfirvöld hvorugra landa hefur staðfest það.
Fyrrverandi sendiherra Indlands í Katar, Dípa Gopalan, hefur áhyggjur af því að þetta gæti skaðað samband þjóðanna tveggja. „Það eru yfir 700 þúsund Indverjar í Katar og við tengjumst sterkum efnahagslegum böndum. Indverska ríkisstjórnin hefur fylgst ítarlega með gangi mála en þyrfti að fara með málið á borð æðstu dómstóla til að tryggja líf mannanna,“ segir hann við The Hindu.
„Þeirra hagsmunir eru okkur fremst í huga. Sendiherrar og erindrekar eru í stöðugum samskiptum við yfirvöld í Katar. Við fullvissum ykkur um það að þeir eru í forgangi,“ bætir sendiherrann fyrrverandi við.