Atburðirnir sem málið varðar áttu sér stað í Kjós á júníkvöldi árið 2021.
Maðurinn er ákærður í þremur liðum. Fyrst fyrir eftirförina og tilraun sína til að þvinga fólkið af veginum. Síðan fyrir að hlýða ekki fyrirmælum lögreglu, sem vildi að hann stöðvaði bifreið sína. Og í þriðja lagi fyrir vopnalagabrot, en í bíl hans fannst hnífur.
Stofnaði lífi fólksins í hættu
Í ákærunni er fyrsti ákæruliðurinn sá umfangsmesti. Manninum er gefið að sök að hafa á Toyota Corolla-bíl hafið eftirför sína á eftir bíl, en farþegar hans voru tveir, um ótilgreindan veg í Kjósinni.
Eftirförin hafi verið um tíu kílómetra vegarkafla, meðal annars um gamla hringveginn í Hvalfirði.
Akstri mannsins, sem ekki hafði gild ökuréttindi, er lýst sem vítaverðum og ógnandi. Hann hafi til að mynda gert tilraun til að þvinga bíl fólksins af veginum. Með því er hann sagður hafa stofnað lífi og heilsu fólksins í augljósan háska.
Fylgdi ekki fyrirmælum lögreglu
Annar ákæruliðurinn varðar síðan eftirför lögreglu á eftir manninum um Hvalfjarðarveg og Eyrarfjallsveg. Hann hafi ekki hlýtt fyrirmælum lögreglu um að stöðva bíl sinn, en honum hafi verið gefin merki um það með forgangsljósum og hljóðmerkjum lögreglu.
Að endingu stöðvaði maðurinn bifreið sína á ótilgreindum afleggjara og þar hafði lögregla afskipti af manninum.
Líkt og áður segir fannst hnífur í bíl mannsins, en fram kemur að blað hnífsins hafi verið átján sentímetra langt.
Það er héraðssaksóknari sem rekur málið í Héraðsdómi Reykjavíkur. Krafist er að maðurinn verði dæmdur til refsingar, sviptur ökuréttindum, og greiði allan sakarkostnað málsins.
Einstaklingarnir bílnum krefjast hvor um sig þriggja milljóna króna í miskabætur.