Samkvæmt AP fréttaveitunni voru tveir af drónunum skotnir niður en annar í flugstöðinni einungis skemmdur. Einhverjir hermenn eru sagðir hafa orðið fyrir lítilvægum meiðslum.
Vígahópar sem njóta stuðnings yfirvalda í Íran hafa hótað því að gera árásir á herstöðvar Bandaríkjanna vegna stuðnings þeirra við Ísrael. Hamas-samtökin njóta einnig stuðnings Írana, eins og Hezbollah-samtökin í Líbanon.
Regnhlífasamtök þessara hópa í Írak hafa lýst yfir ábyrgð á drónaárásunum og heita frekari árásum á næstunni.
U.S. Forces Defend Against Drones in Iraq https://t.co/URHNRuPdvn pic.twitter.com/C1tcdBTuyo
— U.S. Central Command (@CENTCOM) October 18, 2023
Fregnir hafa einnig borist af árásum á herstöðvar í Sýrlandi í dag en þær eru óstaðfestar.
Fréttamiðill í Líbanon, sem tengist yfirvöldum í Íran, sagði frá því fyrr í dag að drónaárás hefði verið á Al-Tanf herstöðinni í Sýrlandi, við landamæri Íraks og Jórdaníu. Þá hefði eldflaugum verið skotið að Conoco herstöðinni í Der al-Zor héraði.
Eins og áður hefur þetta ekki verið staðfest af Bandaríkjamönnum.
Segjast bíða eftir skipunum frá Teheran
Frá því stríðið milli Hamas og Ísrael hófst þann 7. október, hefur mest athygli beinst að Hezbolla í Líbanon,. Aðrir hópar í Mið-Austurlöndum, eins og þeir í Írak, hafa einnig hótað árásum gegn Bandaríkjamönnum. Þessir hópar tilkynntu í gær að þeir hefðu stofnað sameiginlega yfirbyggingu sem ætlað væri að hjálpa Hamas-samtökunum.
Hvað það felur í sér er óljóst. Tveir heimildarmenn AP sem eru í hópunum segja meðlimi þeirra tilbúna til að taka þátt í baráttunni gegn Ísrael en yfirvöld í Íran hafi ekki enn gefið grænt ljós á að opna nýjar víglínur. Heimildarmennirnir segja nokkra af leiðtogum íröksku hópanna vera í Líbanon og Sýrlandi, ef ske kynni að skipanir berist frá Íran.
Bandaríkjamenn eru með flota í austurhluta Miðjarðarhafsins. Þar á meðal er flugmóðurskip og er einnig verið að sigla öðru þangað. Þá gaf Joe Biden, forseti, nýverið skipun um að herdeild landgönguliða yrði einnig send á svæðið.
Biden hefur reglulega varað aðra aðila, og þá aðallega Írana, við því að reyna að nýta sér stríð Hamas og Ísraela.