Eldurinn kviknaði í herbergi á neðri hæð hússins, sem er tveggja hæða atvinnuhúsnæði. Slökkvistarf gekk vel en það tók slökkvilið um klukkustund að slökkva eldinn. Þrír slösuðust í brunanum, einn alvarlega. Sá var inni í herberginu þegar eldurinn kom upp. Hann lést á gjörgæsludeild Landspítalans skömmu síðar.
Hinir hlutu annars vegar brunasár og reykeitrun en hafa báðir verið útskrifaðir af sjúkrahúsi og eru á batavegi.
Skoða myndefni úr eftirlitsmyndavélum
Eiríkur Valberg, hjá miðlægri deild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við fréttastofu að eldsupptök liggi ekki fyrir.
Aðspurður segir hann að það sé ekki hægt að útiloka saknæmt athæfi, eins og íkveikju. Meðal þess sem lögregla hefur til rannsóknar er myndefni úr eftirlitsmyndavélum á svæðinu. Myndavélar eru bæði utandyra og inni í húsinu, en Eiríkur segir að þær hafi skemmst í brunanum en verið sé að vinna í að endurheimta myndefni.

Fjöldi fólks, mest pólskir verkamenn, búa í húsinu. Funahöfði 7 er ekki skráð íbúðarhúsnæði heldur skrifstofu-og iðnaðarhúsnæði.
Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær sagði Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, að slökkviliðið hefði gert úttekt á húsnæðinu í apríl á þessu ári. Eigendur hafi brugðist vel við ábendingum og gert úrbætur á brunavörnum.
„Ef við horfum á allar staðreyndir, bruninn var í einu brunahólfi, það var ekki mikil reykútbreiðsla og viðvörunarkerfi fór í gang. Það eru allavega jákvæðar fréttir við þennan annars hræðilega atburð,“ sagði Jón Viðar.