Handbolti

Tandri fór á kostum er Stjarnan og FH gerðu dramatískt jafntefli

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Tandri Már Konráðsson skoraði tólf mörk fyrir Stjörnuna í kvöld.
Tandri Már Konráðsson skoraði tólf mörk fyrir Stjörnuna í kvöld. Vísir/Diego

Tandri Már Konráðsson skoraði tólf mörk fyrir Stjörnuna er liðið gerði dramatískt jafntefli gegn FH í Olís-deild karla í handbolta í kvöld, 34-34.

Leikurinn var jafn og spennandi frá upphafi til enda og skiptust liðin á að hafa forystuna. FH-ingar voru í besta falli hálfu skrefi á undan Stjörnunni stærstan hluta fyrri hálfleiks, en Stjörnumenn snéru taflinu sér í hag fyrir hlé og leiddu með tveimur mörkum þegar liðin gengu til búningsherbergja, staðan 18-16.

Það sama var uppi á teningnum í síðari hálfleik og munurinn á liðunum varð aldrei meiri en tvö mörk. Heimamenn í Stjörnunni voru einu marki yfir þegar um fimm mínútur voru eftir af leiknum og Pétur Árni Hauksson kom liðinu í 34-33 þegar aðeins um tíu sekúndur voru eftir.

FH-ingar tóku þá leikhlé og nýttu seinustu sóknina heldur betur vel. Aron Pálmarsson fann Jón Bjarna Ólafsson sem kom boltanum í netið með góðu gólfskoti rétt í þann mund sem lokaflautið gall og niðurstaðan varð því jafntefli, 34-34.

Tandri Már Konráðsson átti stórleik fyrir Stjörnuna og skoraði tólf mörk fyrir liðið, en Pétur Árni Hauksson kom næstur með sex mörk. Í liði FH var Einar Bragi Aðalsteinsson markahæstur með átta stykki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×