„Þetta virðist ekki ætla að verða eins slæmt og það áti að vera. Það er þó hvasst og í Vestmannaeyjum voru þónokkur verkefni sem björgunarsveitir þurftu að sinna. Þakplötur sem voru að fjúka, hjólhýsi sem fór á hlið og bílskúrshurð sem fauk af,“ segir Jón Þór Víglundsson upplýsingafulltrúi Landsbjargar.

Hann segir veðrið ekki hafa haft eins mikil áhrif og talið var í upphafi að það myndi hafa, en að það sé jákvætt. Hann telur að vegalokanir hafi mikið um það að segja en þá eru færri á ferð. Vegalokanir tóku gildi í morgun og eru enn í gildi víða á Suðaustur- og Norðausturlandinu. Gular og appelsínugular viðvaranir eru enn í gildi og víða nokkuð hvasst. Síðustu viðvaranir renna út um miðjan dag á morgun.
