Óskar Logi er einn reynslumesti rokkari landsins og hefur verið forsprakki hljómsveitarinnar Vintage Caravan síðan hann var í grunnskóla á Álftanesinu árið 2006. Þá var Óskar Logi tólf ára gamall en síðan þá hefur sveitin stigið á stokk í hundruð landa og á fjölda aðdáenda um heim allan.
Viðtal við Óskar Loga mun birtast í heild sinni á morgun á Vísi. Í þættinum ræðir Óskar barnæskuna, hvernig það er að vera stórstjarna í útlöndum en einnig sviplegt fráfall eldri bróður hans sem haft hefur mikil áhrif á hann.
Hér má sjá stutt brot úr þættinum.
Hélt að allir myndu gleyma sér
„Ég hélt bara að allir myndu gleyma mér. Ég hélt að pabbi yrði bara eitthvað: „Við ætlum ekki að ná í hann í dag í skólann. Við erum búin að gleyma honum,“ segir Óskar léttur í bragði.
„Ég var svona þangað til í 3. eða 4. bekk. Ég var bara stressbolti. Ég var eini krakkinn sem mátti vera með síma. Þá gat ég hringt og spurt: Manstu eftir mér?“
Óskar segir kvíðann hins vegar skyndilega hafa horfið. Hann hafi skyndilega orðið gríðarlega sjálfstæður.
„Stuttu eftir það sá ég School of Rock. Þá var ég bara: Þetta er mín köllun. Þá vissi ég það bara. Ókei, ef þessir krakkar geta þetta, þá get ég þetta líka!“
Viðtalið við Óskar Loga í Einkalífinu birtist í heild sinni á Vísi á morgun. Einnig verður hægt að hlusta á þáttinn í hlaðvarpsformi á helstu streymisveitum.