Svo virðist sem NFL-leikmaðurinn Travis Kelce hafi nælt í eina vinsælustu tónlistarkonu heims, sjálfa Taylor Swift.
Hún var í einkastúku Kelce-fjölskyldunnar á leik Kansas City Chiefs og Chicago Bears um þarsíðustu helgi og var aftur mætt þegar Chiefs mætti New York Jets í gær.
Í beinni útsendingu NBC frá leiknum var myndavélinni margoft beint upp í stúku að Swift og vinum hennar. Þar á meðal voru góðvinir Swifts, leikarahjónin Blake Lively og Ryan Reynolds.
Einhverjum hörðum NFL-aðdáendum fannst nóg um hversu oft myndavélinni var beint upp í stúku, sérstaklega þegar sýnt var frá Swift eftir að Höfðingjarnir skoruðu sitt fyrsta snertimark í leiknum. Létu þeir óánægju sína í ljós á samfélagsmiðlum.
Chiefs sigraði Jets, 23-20, og hefur unnið þrjá af fyrstu fjórum leikjum sínum á tímabilinu.