Skoðun

Vanda sig

Bjartmar Þórðarson skrifar

Ég get ekki orða bundist eftir það sem ég er búinn að sjá á samfélagsmiðlum og í kommentakerfum undanfarna tvo daga.

Ég hef séð ótrúlegar aðdróttanir og yfirgengilega hinseginfóbíu, sem virðist því miður hafa grasserað undir sléttu og felldu yfirborðinu allan tímann að einhverju marki. Ég hef ekki séð flæða svona uppúr ræsinu gagnvart hinseginfólki hérlendis í mínu lífi, og hef ég þó fylgst vel með umræðunni í bráðum 30 ár. Rangfærslurnar og rangtúlkanirnar hafa verið yfirgengilegar.

Ég hef lesið alla þræði og greinar sem ég hef komist í um málið undanfarna daga og tek eftir nokkrum þráðum í umræðunni.

Það hræðir mig gríðarlega hvað lesskilningur virðist lélegur og skortur á gagnrýninni hugsun gagnvart upplýsingum virðist algjör.

Það ríkir grundvallarmisskilningur um hver fræðir um hvað:

Samtökin 78 fræða um kynhneigð, kynvitund, kyneinkenni, kyntjáningu. Fræðslan er almenn og miðar að því að fræða um að fólk sé allskonar til að minnka mögulega skömm barna og unglinga.

Skólakerfið sér svo um kynfræðslu.

Ég hef séð óteljandi fullyrðingar þar sem fræðslu S78 og kynfræðslu skólakerfisins er splæst saman og S78 gerð ábyrg fyrir einhverju sem kemur fram í kynfræðsluefni frá hinu opinbera.

Fólk sem veit minna en ekkert um málefnin er skyndilega orðið sérfræðingar:

Enginn betur fallinn til að dæma en þau. Nennir ekki eða er ekki reiðubúið að kynna sér orð og pistla sérfræðinga í málaflokknum heldur hoppa á æsingavagninn og fella stóra dóma. Ég hef séð fólk sem ég taldi þolanlega gefið rökræða út í hið óendanlega um þessi mál án þess að hafa til þess lágmarksþekkingu eða hafa nennt að aflað sér grunnupplýsinga. Hrokinn gagnvart reynslu og sérfræðimenntun er algjör.

Ofboðslegur ótti um að S78 og skólakerfið sé að „kynvæða“ börnin:

Ég segi það aftur: Fræðsla samtakanna er ekki kynlífsfræðsla. Kynfræðsla skólanna, sem mörgum finnst orðin heldur opinská, er VIÐBRAGÐ við samfélaginu eins og það er, EKKI ORSÖK. Hvort sem fólki líkar betur eða verr, þá eru krakkar með greiðari aðgang að klámi og kynlíf og fylgifiskar þess eru allt í kringum þau frá fyrstu skrefum. Foreldrar eru rækilega með hausinn í sandinum ef þau halda annað. Börn eru forvitin, taka eftir öllu og það er verið að reyna að grípa inn í áður en klámið mótar þau.

Skyndilegur áhugi á málefnum barna: Megnið af því fólki sem ég sé tjá sig um þessi mál hefur haft lítinn áhuga á að tjá sig um velferð barna fyrr en það fann hæpna tengingu á milli hinseginfræðslu og kynfræðslu barna. Orðræðan sem ég hef séð á netinu er almennt mjög hinseginfóbísk og rótin virðist vera gamla fordómafulla leiðarstefið „kynvillingar eru pedófílar sem eru á höttunum eftir börnunum okkar“. Þetta er orðræða sem var að mestu búið að kveða í kútinn en hefur verið flutt inn til landsins af áhangendum öfgahægriafla í Bretlandi og Bandaríkjunum. Fyrir þá sem nenna að skoða sögulegu heildarmyndina er oft rosalega gott í pólitíkinni að beina sjónum að ímynduðum óvin úr minnihlutahópi til að beina athyglinni frá vondu efnahagsástandi og upplausn. Fátt þjappar hræddu og reiðu fólki eins vel saman og gott móralskt panikk, hvað þá þegar hægt að tappa auðveldlega inn á tilfinningalíf fólks með því að tala um börnin.

BDSM þráhyggja: Á einu plakati S78, sem gefið var út 2019, er minnst á tilvist BDSM með einni setningu: „Að laðast að fólki sem deilir löngunum um samþykk og meðvituð valdaskipti“. Þetta var sett á plakat í kjölfar mikils áhuga barna á Hatara þegar þau fóru í Eurovision. Í samfélaginu og á miðlum var minnst á tengingu hljómsveitarinnar við BDSM og fengu fræðarar spurningar um hvað það væri. Þessi skilgreining var notuð til að afgreiða þær spurningar og ef spurt var nánar var skilgreiningin einungis endurtekin. S78 er ekki að auglýsa BDSM inni í grunnskólum landsins eins og á einhverri Tupperware-kynningu. Þau stíga mjög varlega til jarðar ef þetta málefni ber á góma því þau vita að það er viðkvæmt.

Skilgreining BDSM sem hneigðar er mjög umdeild innan hinseginsamfélagsins og var samþykkt hagsmunaaðildar BDSM að S78 orsök klofnings meðal félagsmanna S78.

Rök fyrir aðild voru meðal annars að BDSM félagar A: skilgreina sig sjálf sem BDSM-hneigð, og B: að hópurinn ætti undir högg að sækja vegna augljósra fordóma. Sjálfsskilgreingarvald hefur verið í hávegum haft innan S78 og vegna hliðstæðu í upplifun taldi stór hópur S78 meðlima BDSM-félagið eiga erindi undir regnhlíf samtakanna sem félag tengt hagsmunaaðild.

Rök gegn þessari aðild voru meðal annars þau að annað hinseginfólk myndi fá yfir sig holskeflu fordóma vegna tengingarinnar. Því miður má heldur betur segja að það hafi raungerst undanfarna daga. Ég ætla þó alls ekki að fella neins konar dóm um þessa aðild hér, set þessa klausu fram til að reyna að útskýra tengingu félaganna í mjög stuttu og einfölduðu máli.

Ég mun engan veginn nenna að ræða efni þessarar greinar við fólk sem nennir ekki að kynna sér auðfengnar upplýsingar. Ég er kominn að ákveðnum þolmörkum varðandi hvað ég er til í að hlusta á frá fólki sem dregur almennar ályktanir útfrá mjög svo þröngum reynsluheimi sínum og vafasömum upplýsingum sem það veit ekkert hvaðan koma. Tilfinningaupphlaup byggt á skjáskoti sem einhver póstaði af einhverju inni í Facebook grúppu er ekki áreiðanleg heimild.

Í svona málum er ágætt að hafa eftirfarandi í huga:

Hvaða upplýsingum tek ég mark á? Er heimildin áreiðanleg?

Hlusta á fólk sem hefur reynslu af málinu. Veit það mögulega meira um málefnið en ég?

Kynna sér málið.

Vanda sig.

Höfundur er listamaður.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×