Enski boltinn

Liver­pool veit ekki hve­nær hægt er að klára nýju stúkuna á Anfi­eld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mo Salah og félagar í Liverpol þurfa áfram að horfa upp á hálftóma stúku á Anfield.
Mo Salah og félagar í Liverpol þurfa áfram að horfa upp á hálftóma stúku á Anfield. Samsett/Getty

Framkvæmdir við eina stúkuna á Anfield, heimavöll enska úrvalsdeildarfélagsins Liverpool, eru stopp og félagið veit ekki alveg hvernig framhaldið verður.

Liverpool fór í það að stækka stúkuna við Anfield og hafa þær framkvæmdir staðið yfir frá árinu 2021.

Fyrst var ný stúkubygging reist fyrir aftan þá gömlu og í sumar var síðan farið í að sameina þær. Þær framkvæmdir áttu að klárast áður en 2023-24 tímabilið hófst.

Allt fór hins vegar í uppnám þegar verktakinn fór á hausinn. Billy Hogan, stjórnarformaður hjá Liverpool, segir í samtali á heimasíðu félagsins að framkvæmdirnar séu stopp og að það sé óljóst hvert framhaldið verður. BBC segir frá.

Liverpool hefur þegar spilað einn heimaleik á tímabilinu og þá var áhorfendum aðeins hleypt inn í hluta stúkunnar. Stór hluti hennar var aftur á móti lokaður af en stefna Liverpool er að opna hluta hennar í áföngum.

„Við erum í biðstöðu eins og er eftir að við fengum þessar fréttir,“ sagði Billy Hogan við heimasíðu Liverpool.

„Auðvitað höfum við talað um að hafa stúkuna tilbúna áður en október rennur í garð og augljóslega höfum við rætt þá óvissu sem skapast með þessari stöðu á verktakanum. Við stefnum enn á október en aðalvinnan núna er að setja upp nýtt skipulag. Öll tímaáætlun er fljótandi í dag, það er mikil óvissa um stöðu mála en það mun allt skýrast betur eftir ákveðinn tíma,“ sagði Hogan.

Þessi stækkun á að skila sjö þúsund fleiri sætum á leikjum Liverpool en leikvangurinn á eftir þessar framkvæmdir að taka 61 þúsund manns í sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×