Víkingur er kominn með ellefu stiga forskot á toppi Bestu deildar karla í fótbolta en Fossvogsliðið lagði Val, sem situr í öðru sæti deildarinnar, að velli með fjórum mörkum gegn engu í toppslag liðanna í 20. umferð deildarinnar á Origo-vellinum að Hlíðarenda.
Nikolaj Hansen, Birnir Snær Ingason, Logi Tómasson og Danijel Dejan Djuric skoruðu mörk Víkinga sem sigla hraðbyri í átt að Íslandsmeistaratitlinum.
En það voru ekki aðeins þrjú stig í húfi í leik gærkvöldsins því Víkingar náðu með sigrinum sögulegum áfanga og hafa nú bætt stigametið í efstu deild, þegar enn eru eftir tvær umferðir af deildarkeppninni sjálfri og haldið verður í úrslitakeppnina.
Víkingar sitja á toppi Bestu deildarinnar með 53 stig en fyrra metið var í eigu Stjörnunnar (2014) og KR (2013) og stóð í 52 stigum.
Mörkin úr þessum sögulega leik má sjá hér fyrir neðan.