Frá þessu greinir Morgunblaðið en Vísir hafði áður greint frá því að Alþýðusamband Íslands og VR hefðu ákveðið að hætta viðkskiptum við bankann og leita annað.
Morgunblaðið hefur eftir Hjördísi Þóru Sigurþórsdóttur, 2. varaforseta ASÍ, að ákvörðunin um að hætta viðskiptum við bankann hafi verið tekin óháð því hvernig bankinn hefði brugðist við brotum stjórnenda hans.
Þá var ekki um samantekin ráð ASÍ og VR að ræða.
Hjördís segist efins um að hægt sé að bæta fyrir þau brot sem framin voru.
„Þarna erum við að tala um eigur almennings í landinu sem er verið að selja til valinna aðila á undirverði,“ segir hún. Um sé að ræða varanlegan blett á orðspori Íslandsbanka.
Jón Guðni Ómarsson, nýr bankastjóri bankans, segir skýran vilja til að axla ábyrgð. Hann segist ekki hafa orðið var við verulegt brotthvarf viðskiptavina bankans.