Sport

Sænsk tenniskona í langt bann fyrir hagræðingu úrslita

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tenniskonan má ekki keppa aftur fyrr en undir lok ársins 2026.
Tenniskonan má ekki keppa aftur fyrr en undir lok ársins 2026. Getty/Frank Molter

Sænsk tenniskona var dæmd í fjögurra og hálfs árs bann frá æfingum og keppni eftir að hún gerðist sek um að hagræða úrslitum í sínum leikjum.

Sænska tennissambandið segir að hún megi ekki taka þátt í ITF mótaröðinni sem er næsta stig fyrir neðan ATP mótaröð karlanna og WTA mótaröð kvenna.

Sænska sambandið segir á heimasíðu sinni að konan hafi farið í bann í mars fyrir að veðja á leiki og að reyna að hafa óeðlileg áhrif á úrslit leikja. Hún hefur í raun verið í banni frá maí 2022 þegar rannsókn á hennar máli hófst.

Tenniskonan áfrýjaði dómnum en þeirri áfrýjun var vísað frá. Það þýðir að konan verður að sætta sig við að vera í banni til 17. nóvember 2026. Þetta á ekki aðeins við tennis heldur allar íþróttir.

Umrædd tenniskona hefur áður gerst brotleg við lögin því hún hefur áður verið dæmd fyrir að þiggja mútur í tengslum við alþjóðlega leiki.

„Sænska tennissambandið tekur hegðun leikmannsins mjög alvarlega en hún hefur skaðað sænskan tennis og sænskar íþróttir,“ segir í yfirlýsingu á heimasíðu sambandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×