Frá þessu greinir Þóra í færslu á Facebook.
Þar segir hún að hún hafi ákveðið að láta af störfum að loknu fæðingarorlofi eftir sex ára starf hjá Advania. Þar hefur hún gengt stöðu upplýsingafulltrúa upplýsingatæknifyrirtækisins.
„Það var eins og að koma aftur í gamla skólann sinn eða næstum eins og að koma aftur heim, enda hef ég verið þar með annan fótinn frá 2004 og hef góða reynslu af því að ala upp smábarn innan stofunarinnar. Mætti með uppsafnaða löngun eftir langt hlé frá fjölmiðlum,“ segir Þóra um fyrsta daginn hjá RÚV.
Gengur til liðs við Rás 1
Í samtali við Vísi segir Þóra að hún muni ganga til liðs við Rás 1 og taka við fréttaskýringaþættinum Þetta helst ásamt Sunnu Valgerðardóttur, sem hefur stýrt þættinum frá því að hann fór fyrst í loftið.
Í dag hafi hún stimplað sig inn og komið sér fyrir í Efstaleiti á ný. Næstu vikur fari svo í að skipuleggja framhald þáttarins og brakandi ferskur þáttur fari í loftið í september.
Fréttin hefur verið uppfærð.