Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra sagði aðspurð í morgun ekki tímabært að taka ákvörðun um framhald hvalveiða. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins segir ákvörðun ráðherra um að stöðva veiðarnar tímabundið ekki hafa haft jákvæð áhrif á stjórnarsamstarfið.
Framkvæmdastjóri Rauða krossins segir úrskurð kærunefndar jafnréttismála um að samtökin hafi gerst sek um kynbundin launamun hafa komið sér á óvart. Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að fleiri en sú sem kærði hafi upplifað mismunun.
Erlendir fjárfestar hafa keypt stóran hlut í Icelandic Water Holdings. Þeir stefna á stórframkvæmdir í Ölfusi en til stendur að fjölga verksmiðjum fyrirtækisins og auka söluna um 50 prósent á ári næstu árin.
Heimsmeistaramót íslenska hestsins stendur yfir í Hollandi og nær hámarki um helgina. Við ræðum við Telmu Tómasson sem stödd er á mótinu.
Og í íþróttunum verður meðal annars fjallað um bikarúrslitaleik kvenna í knattspyrnu þar sem Breiðablik og Víkingur mætast. Þetta verður fyrsti bikarúrslitaleikur Víkingskvenna en Blikar hafa oft komið við sögu.