Ríkissjónvarp Níger greindi frá lokun lofthelginnar í gærkvöldi. Það var nokkrum klukkustundum áður en nálínan (e. deadline) sem Efnahagsbandalag Vestur-Afríkuríkja (ECOWAS) gaf herforingjastjórninni fyrir viku síðan rann út.
Bandalagið hafði gefið stjórninni viku, eða til 6. ágúst, til þess að setja Mohamed Bazoum, forsetann sem var steypt af stóli, aftur í embætti ella mæta hervaldi.
Ofurstinn Amadou Abdramane, talsmaður herforingjastjórnarinnar, varaði við „ógninni um íhlutun sem er verið að undirbúa í nágrannalandi“ og sagði að lofthelgi Níger yrði lokað uns annað verður ákveðið.
Herforingjastjórnin segir að tvö miðafríkuríki hafa gengið til liðs við þær þjóðir sem eru að undirbúa árás á Níger. Ekki kemur fram hvaða lönd það eru.
Það er ekki ljóst hvað ECOWAS gerir nú þegar fresturinn sem bandalagið gaf herforingjastjórninni er runninn út.
Níger var álitið af Bandaríkjunum, Frakklandi og öðrum löndum sem einn síðasti félagi þeirra í hryðjuverkavörnum á Sahel-svæðinu sunnan við Sahara þar sem hópar tengdir al-Qaeda og íslamska ríkinu hafa verið að breiða úr sér.
Framtíð um 1.500 franskra hermanna og um 1.100 bandarískra hermanna í Níger er nú í lausu lofti. Herforingjastjórnin hefur að minnsta kosti slitið öll tengsl við Frakka hvað varðar öryggisaðgerðir.