Íslenski boltinn

Bleikar línur, búningar og hornfánar í Vesturbæ í kvöld

Sindri Sverrisson skrifar
Það verða bleikir búningar, línur og hornfánar á Meistaravöllum í kvöld.
Það verða bleikir búningar, línur og hornfánar á Meistaravöllum í kvöld. KR

Bleiki liturinn verður áberandi á Meistaravöllum í Vesturbænum í kvöld þegar grannliðin KR og Grótta mætast í Lengjudeild kvenna í fótbolta.

KR-ingar hafa ákveðið að nýta leikinn til að styðja við málefni sem tengjast baráttunni við brjóstakrabbamein og mun hagnaður af miðasölu renna til Bleiku slaufunnar. 

Þá mun Alvotech, aðalstyrktaraðili KR, leggja fram jafnmikið fjármagn og safnast af miðasölu, til Bleiku slaufunnar og Krabbameinsfélagsins.

Leikmenn KR munu í fyrsta sinn í sögunni klæðast bleikum búningum og ekki nóg með það heldur verða allar línur vallarins, sem vanalega eru hvítar eins og á öðrum fótboltavöllum, verða bleikar í kvöld. Hið sama er að segja um hornfánana.

Leikurinn hefst klukkan 19:15 í kvöld og er um mikilvægan leik að ræða fyrir bæði lið. KR situr í fallsæti og Grótta er þremur stigum frá 2. sæti, í jafnri baráttu um að komast upp í Bestu deildina. Aðalatriðið í kvöld er þó að að styðja við gott málefni:

„Við erum ótrúlega stolt af stelpunum okkar,“ segir Þórhildur Garðarsdóttir, formaður KR. „Þær völdu sjálfar að styrkja Bleiku slaufuna enda stendur þetta leikmönnum okkar afar nærri og þær vilja gera sitt til þess að efla umræðu um brjóstakrabbamein á Íslandi og um leið safna fjármagni til styrktar málefninu. Okkur langar því að hvetja sem flesta til þess að mæta. Við viljum láta gott af okkur leiða og virkja Vesturbæinga til þess með okkur. Sýnum stuðning. Það skiptir okkur miklu máli í dag,“ segir Þórhildur í fréttatilkynningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×