Fréttamenn New York Post hafa nýverið sótt að húsi Ásu og Heuermann, tekið myndefni og otað spurningum að Ásu og uppkomnum börnum hennar, þeim til mikillar mæðu. Loks féllst hún á viðtal við vefmiðilinn þar sem hún sagði frá því sem gengið hefur á hjá fjölskyldunni eftir handtöku Heuermann.
Húsið það eina sem hún á
Í samtali við miðilinn segir hún lögregluna hafa rústað heimili þeirra í leit sinni að sönnunargögnum í málinu. Hún segir skemmdirnar sem lögreglan skildi eftir sig svo miklar að hún eigi ekki einu sinni rúm til þess að sofa í.
Til að mynda hafi baðkar og flísar á baðherbergi þeirra verið rifið í sundur. Að auki hafi þau þurft að grafa í gegnum rústirnar til þess eins að finna stól til þess að sitja á.
„Ég átti þrjá ketti. Kattakössunum hafði verið kastað út um allt. Ljósmyndunum mínum líka,“ segir Ása. „Sófinn var alveg tættur.“ Hún segir að þrátt fyrir að varla sé hægt að búa í húsinu sé það það eina sem hún á.
Í frétt CNN segir að húsleitin hafi skilað 279 vopnum auk annarra sönnunargagna.
Mikið uppnám
„Börnin mín gráta sig í svefn. Ég meina, þau eru ekki börn. Þau eru fullorðið fólk en þau eru börnin mín og sonur minn er með þroskahömlun, hann grét sig í svefn,“ segir Ása um ástand fjölskyldunnar eftir handtökuna. „Hann er í svo miklu uppnámi og hann skilur ekki. Og sem móðir hef ég engin svör fyrir hann.“
Lögmaður Ásu var með henni í viðtalinu. Hann segir lögregluna og pressuna hafa komið fram við þau eins og skepnur.
Ása hefur þegar sótt um skilnað við Heuermann, en þau hafa verið gift í 27 ár. Samkvæmt heimildum New York Post hafa hvorki hún né börn þeirra heimsótt Heuermann í gæsluvarðhald. Hann hafi einungis fengið heimsóknir frá lögmanni sínum.
Fréttin hefur verið uppfærð.