Sport

Dómari ársins búinn að dæma erlendis í allt sumar og stefnir langt

Andri Már Eggertsson skrifar
Davíð Tómas Tómasson var valinn dómari ársins í vor
Davíð Tómas Tómasson var valinn dómari ársins í vor VÍSIR/VILHELM

Davíð Tómas Tómasson, körfuboltadómari, hefur verið á miklu flakki í dómgæslunni í sumar og er með háleit markmið.

Davíð Tómas var kosinn dómari ársins í vor af leikmönnum og þjálfurum efstu deildar karla og kvenna.

Eftir tímabilið í Subway-deildinni hefur Davíð verið á flakki erlendis í allt sumar og dæmt Evrópumót ungmenna í körfubolta. Davíð segir frá ferðalagi sínu í færslu á Facebook.

„Að því loknu var ferðinni heitið til Krítar að dæma í A deild á Evrópumóti U20 drengja. Stærsta mót sumarsins hjá FIBA og mikill heiður að vera valinn þangað. Margir af bestu dómurum Evrópu voru þar og ótrúlega lærdómsríkt að deila vellinum með þeim og fá að máta sig við þá bestu í Evrópu.“

Hann dæmdi einnig í Portúgal á Evrópumóti U18 drengja í B-deild og að hans sögn var það góð reynsla þrátt fyrir að gæðin hafi ekki verið þau sömu og á mótinu á undan.

Davíð mun síðan halda áfram að dæma erlendis í ágúst en hann mun síðan dæma í Rúmeníu hjá U16 í drengjaflokki B-deildar.

„Ég er með skýr markmið fyrir minn Evrópu feril og er búinn að setja upp 10 ára plan! Við lifum fyrir þetta dæmi,“ segir Davíð Tómas Tómasson að lokum í Facebook færslu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×