Það var svo mat Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra, að Ástráður uppfylli best þær kröfur sem gerðar eru til ríkissáttasemjara. Hann var settur ríkissáttasemjari í deilu Samtaka atvinnulífsins og Eflingar í vor. Auk þess var hann settur ríkissáttasemjari frá 1. júní síðastliðnum.
Umsækjendur voru metnir af ráðgefandi hæfnisnefnd sem skipuð var af félags- og vinnumarkaðsráðherra. Nefndin skilaði álitsgerð sinni þann 10. júlí síðastliðinn og var niðurstaða hennar að tveir umsækjendur væru „mjög vel hæfir“ til að gegna embættinu.
Umsækjendur um embættið voru eftirtaldir:
- Aldís Guðný Sigurðardóttir, lektor við viðskiptadeild HR og forstöðumaður MBA-náms og aðstoðarríkissáttasemjari
- Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari
- Hilmar Már Gunnlaugsson, lyfjafræðingur
- Maríanna Hugrún Helgadóttir, formaður og framkvæmdastjóri Félags íslenskra náttúrufræðinga
- Muhammad Abu Ayub, vaktstjóri
- Skúli Þór Sveinsson, sölumaður
Ástráður lauk embættisprófi í lögfræði við Háskóla Íslands árið 1990. Hann öðlaðist héraðsdómslögmannsréttindi ári síðar og var skipaður hæstaréttarlögmaður árið 1995. Hann starfaði sem lögmaður þar til hann tók við embætti héraðsdómara í janúar árið 2018.
Hann starfaði í hlutastarfi sem aðstoðarsáttasemjari við embætti ríkissáttasemjara frá árinu 2019 þar til hann tók við embætti dómara við Félagsdóm árið 2022.