Nokkur fjöldi fólks hafði safnast saman fyrir utan en þar var einnig fyrrum talsmaður konunnar, Eva Hauksdóttir, sem sagðist ekki hafa átt von á því að málið myndi ganga svo langt.

„Þau eiga ekki í nein hús að venda og bera enga ábyrgð á þeirri stöðu sem er komin upp. Hún dró umsókn sína til baka og ætlaði að fara til Ítalíu en þau vilja ekki taka við henni. Útlendingastofnun vill ekki taka ábyrgð á henni,“ sagði Eva og að öryggisvörður í húsnæðinu hefði sagt henni að skipunin um að bera þau út hefði komið frá Útlendingastofnun.
„Það er engin að taka ábyrgð á þessu og lögreglan spurði mig hvort ég vildi taka hana heim til mín. Það er ríkið sem ber ábyrgð á þessu og það er ekki hægt að gera einstaklinga ábyrga fyrir því að stofnanir ríkisins standi sig ekki.“
Konan kom til Íslands í janúar eftir að hafa fyrst sótt um vernd á Ítalíu. Eftir um fjögurra mánaða dvöl dró hún til baka umsókn sína um alþjóðlega vernd en vegna yfirlýsts neyðarástands á Ítalíu getur stoðdeild ríkislögreglustjóra ekki flogið með hana þangað aftur.
Eva er lögmaður og hefur í dag vakið athygli á máli konunnar en lögreglumennirnir tilkynntu henni fyrir utan að konan yrði ekki borin út í dag.
„En ég veit í raun ekkert hvort að þau hafi náð sambandi við Útlendingastofnun. Hún er örugg hér í nótt og svo verðum við að sjá hvað gerist,“ sagði Eva eftir að lögreglan fór af vettvangi.