Innlent

„Við tökum öllum á­bendingum al­var­lega“

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Lögregla var með viðamiklar aðgerðir í Reykjanesbæ í gær.
Lögregla var með viðamiklar aðgerðir í Reykjanesbæ í gær. Vísir

Ábending til lögreglunnar á Suðurnesjum um að vopnaður maður gengi um götur Reykjanesbæjar í gærkvöldi reyndust ekki á rökum reistar. Varðstjóri segir að lögregla muni ávallt taka öllum slíkum ábendingum alvarlega.

Vísir greindi frá því í gærkvöldi að lögregla hefði lokað götum við Vatnesveg í Reykjanesbæ í gærkvöldi. Fimm lögreglubílar voru á vettvangi auk eins ómerkts bíls og þá var sjúkrabíll jafnframt tiltækur.

Bergur Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn lögreglunnar á Suðurnesjum, segir í samtali við Vísi að lögreglu hafi ekki nýjar upplýsingar undir höndum um málið. Hann vildi ekki segja til um hvort um væri að ræða misskilning hjá þeim sem lét lögreglu vita af vopnuðum manni.

„Þegar tilkynnt er um vopn til lögreglu þá bregðumst við við því. Við leituðum og höfðum ekki árangur sem erfiði,“ segir Bergur sem bætir því við að lögregla verði ávallt að bregðast við öllum ábendingum.

„Þetta er bara vinnan okkar. Við tökum öllum ábendingum alvarlega og munum fylgja þeim eftir alla daga og viljum fá allar tilkynningar og munum bregðast við þeim. Þetta er bara eins og þegar fólk verður vart við reyk, þá hefur það samband við slökkviliðið jafnvel þó um geti á endanum verið að ræða reyk úr grilli.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×