Körfubolti

Tryggvi orðinn leikmaður Bilbao

Sindri Sverrisson skrifar
Tryggvi Snær Hlinason með kraftmikla troðslu í sigri gegn Ítalíu í fyrra.
Tryggvi Snær Hlinason með kraftmikla troðslu í sigri gegn Ítalíu í fyrra. VÍSIR/BÁRA

Íslenski landsliðsmiðherjinn Tryggvi Snær Hlinason var í dag kynntur sem nýjasti liðsmaður Surne Bilbao Basket. Hann mun því spila áfram í efstu deild spænska körfuboltans.

Tryggvi hefur síðustu fjórar leiktíðir spilað með Zaragoza og átti sína bestu leiktíð í vetur. Hann skoraði þá að meðaltali 7,4 stig í leik, tók fimm fráköst og varði 1,7 skot, og var næstefstur í deildinni á eftir Walter Tavares hvað varin skot varðar.

Tryggvi tróð líka boltanum að meðaltali 1,6 sinnum í leik og var með 78% nýtingu í tveggja stiga skottilraunum - þá bestu allra í deildinni.

Samningur Tryggva við Bilbao er til tveggja ára.

Tryggvi hefur verið lykilmaður í landsliði Íslands síðustu ár og í undankeppni HM, þar sem Ísland var aðeins einu stigi frá því að komast á lokamótið, skoraði hann 13,2 stig og tók 8,7 fráköst að meðaltali í leik. 

Þessi 25 ára Bárðdælingur hefur leikið á Spáni frá árinu 2017 þar sem hann byrjaði hjá Valencia, og var lánaður til Obradoiro seinni leiktíðina áður en hann fór til Zaragoza.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×