Dementamótaröðin í frjálsum íþróttum er í fullum gangi þessar vikurnar og í gær fór mót fram í Stokkhólmi þar sem margar af stærstu stjörnum frjálsíþróttaheimsins voru samankomnar.
Norðmaðurinn Karsten Warholm kom fyrstur í mark í 400 metra hlaupi karla en minnstu munaði að heims- og ólympíumeistarinn gæti ekki klárað hlaupið. Í þann mund sem hann hljóp yfir marklínuna fóru mótmælendur inn á hlaupabrautina og stilltu sér upp fyrir þeim keppendur sem áttu eftir að hlaupa í mark.
„Ég varð reiður. Þetta er kjánalegt og forkastanlegt,“ sagði Warholm í samtali við sænska ríkissjónvarpið SVT eftir hlaupið.
„Það á að vera leyfilegt að mótmæla en þetta er ótrúlega lélegt. Þetta er ekki rétta aðferðin, sama um hvað málið snýst.“
Protestors disrupt the conclusion of the 400m hurdles at tonight's Diamond League event in Stockholmpic.twitter.com/OMGxXo6G0k
— Balls.ie (@ballsdotie) July 2, 2023
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Svíar lenda í vandræðum á stórviðburðum vegna mótmæla umhverfissinna. Þegar Loreen söng á úrslitakvöldi Melodifestivalen var hún trufluð af mótmælendum og þurfti að endurtaka atriði sitt. Þá hafa mótmælendur hlaupið inn á völlinn í miðjum bikarúrslitaleik í knattspyrnu, truflað úrslitaþátt Idol og fleiri stóra viðburði.
„Ótrúlega leiðinlegt að þetta hafi gerst, að þeir ráðist inn á okkar viðburð. Hlaupararnir voru næstum því keyrðir niður,“ sagði Jan Kowalski sem var framkvæmdastjóri Demantamótsins í gær.
„Við höfum séð þetta gerast á öðrum viðburðum og vorum tilbúin. Við vissum hvað við ættum að gera ef þetta myndi gerast, að sama skapi getum við ekki sett óeirðagirðingu í kringum allan völlinn á svona viðburði. Við gerðum það sem við gátum og vorum fljót að bregðast við.“