Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins segir að honum hafi brugðið við ákvörðun Svandísar Svarsdóttur matvælaráðherra og hann væri ekki sáttur við hana.

„Ég hef á tilfinningunni að þetta snúist ekki bara um aðferðafræðina við veiðarnar. Þetta snýst í mínum huga að verulegu leyti um að fólk er á móti því að veiða hvali. Það ræddum við þegar við mynduðum ríkisstjórnina. Við ræddum það sérstaklega hvort flokkarnir gætu verið sammála um að stöðva hvalveiðar og ég var á móti því. Ég hafnaði því að það yrði upplegg þessarar ríkisstjórnar,“ segir Bjarni.
Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna minnti á að sett hefðu verið lög um velferð dýra.

„Það er ráðist í eftirlit samkvæmt reglugerð sem sýnir ákveðna þætti. Það er fjallað um það í fagráði. Það tekur þennan tíma. Þetta álit skilar sér ekki fyrr en tiltölulega seint. Það hafa verið einhverjar vangaveltur um hvers vegna það kom svo seint og hvaða ástæður eru fyrir því. Þannig er staðan og þá segi ég hvað á ráðherrann að gera annað en að bregðast við því áliti,“ sagði Katrín.
Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins hefði kosið að álit fagráðs hefði verið sent til frekari skoðunar. Ákvörðun matvælaráðherra snúist í raun um að hætta hvalveiðum þar sem ekki væri hægt að bæta aðferðina við veiðarnar.

„Vegna þess að áhrifin eru auðvitað umtalsverð á stóran hóp fólks. En þetta hefur líka áhrif á þá stefnu sem við höfum haft í nýtingu á auðlindum hafsins óbeint og þessi ákvörðun er ekki grundvölluð á því. Þannig að það hefði verið eðlilegra að taka þá umræðu inni í þinginu,“ sagði Sigurði Ingi.
Framvinda þessa máls, Bjarni, skiptir hún máli varðandi framtíð stjórnarsamstarfsins?
„Ég skal bara ekkert segja til um það á þessum tímapunkti. Mér finnst þetta ekki vera gott innlegg inn í stjórnarsamstarfið á þessum tímapunkti. Mér finnst aðdragandinn ekki vera ásættanlegur og við erum ósátt við niðurstöðuna,“ sagði formaður Sjálfstæðisflokksins og Sigurðir Ingi var á svipuðum nótum.

„Það skiptir auðvitað máli hvernig við nálgumst annars vegar einstaka ákvarðanir sem fyrir fram er vitað að séu umdeildar og síðan hvernig við auðvitað vinnum úr þeim í framhaldinu. Þetta mál er eitt þeirra,“ sagði formaður Sjálfstæðisflokksins.
Hér fyrir neðan má sjá Pallborðið í heild: