Í samgönguáætlun 2020–2034, sem samþykkt var á Alþingi 29. júní 2020, kom meðal annars fram að stefnt væri að því að vinna heildstæða greiningu á jarðgangakostum á Íslandi. Þar ætti að meta valkosti á einstaka leiðum með tilliti til fýsileika, kostnaðar og félagshagfræðilegs ábata. Á grunni þeirrar greiningar væri svo hægt að forgangsraða jarðgangakostum til lengri tíma.

Þessari vinnu er nú að ljúka að sögn ráðherra. Á árinu 2021 gaf Vegagerðin út yfirlitsáætlun jarðganga um þá jarðgangakosti sem helst hafa verið til umræðu og skoðunar á undanförnum árum sem var grunnur að þessari greiningu. Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri (RHA) vann í framhaldinu mat á arðsemi, umferðaröryggi, tengingu svæða og byggðaþróun fyrir þessa jarðgangakosti.
Skýrsla RHA kom fyrst út árið 2022, en í upphafi árs 2023 var bætt við umfjöllun um Seyðisfjarðargöng og Mjóafjarðargöng. Vegagerðin hefur í framhaldinu lagt fram tillögu að forgangsröðun jarðgangakosta með hliðsjón af markmiðum samgönguáætlunar um greiðar samgöngur, öruggar samgöngur, hagkvæmar samgöngur, umhverfislega sjálfbærar samgöngur og jákvæða byggðaþróun. Einnig var tekið tillit til hversu brýnt vandamálið er sem viðkomandi jarðgöng eiga að leysa.
Blaðamannafund ráðherra í heild má sjá að neðan.
Í drögunum að samgönguáætlun, sem lesa má í heild hér neðst í fréttinni, er lögð til eftirfarandi forgangsröðun jarðganga:
- Fjarðarheiðargöng
- Siglufjarðarskarðsgöng
- Hvalfjarðargöng 2
- Göng milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur
- Göng milli Ísafjarðar og Súðavíkur
- Breiðadalsleggur, breikkun
- Seyðisfjarðar- og Mjóafjarðargöng
- Miklidalur og Hálfdán
- Klettsháls
- Öxnadalsheiði
Lagt er til að jarðgangaáætlun verði endurskoðuð samhliða endurskoðun samgönguáætlunar hverju sinni. Til síðari skoðunar eru einnig þessi göng:
- Reynisfjall
- Lónsheiði
- Hellisheiði eystri
- Berufjarðargöng og Breiðdalsheiðargöng
Fjármögnun jarðgangaáætlunar er eitt af verkefnum í heildarendurskoðun tekjuöflunar af ökutækjum og umferð. Stefnt hefur verið að hóflegri gjaldtöku vegna þessarar uppbyggingar sem nánar verður útfærð í samvinnu innviðaráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis.
Meðal þeirra kosta sem einnig koma til greina er að stofna sérstakt innviðafélag sem haldi utan um flýtiframkvæmdir og jarðgöng. Slíku félagi yrði lagt til eigið fé, til að mynda í formi samgönguinnviða, en til greina kæmi að það hefði vel skilgreindar heimildir til lántöku.
Fjárveiting í þessari áætlun er til undirbúnings og rannsókna næstu þriggja jarðganga þannig hægt verði að fara í framkvæmdir á þeim í framhaldi af gerð Fjarðarheiðarganga.