Innlent

Komst undan lögreglu á hlaupum

Samúel Karl Ólason skrifar
Í dagbók lögreglu segir að þó nokkrar tilkynningar um veikindi, hávaðakvartanir og tilkynningar um fólk í annarlegu ástandi hafi ratað á borð lögreglu.
Í dagbók lögreglu segir að þó nokkrar tilkynningar um veikindi, hávaðakvartanir og tilkynningar um fólk í annarlegu ástandi hafi ratað á borð lögreglu. Vísir/Vilhelm

Lögregluþjónar Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu ætluðu í gærkvöldi að hafa afskipti af ökumanni bíls í miðbænum. Sá komst undan lögreglu en bíllinn fannst mannlaus í lausagangi. Vegfarandi benti lögreglu á að ökumaðurinn hefði hlaupið inn í garð þar skammt frá og komist undan.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í dagbók lögreglu.

Annar ökumaður sem var stöðvaður í akstri er grunaður um ölvun við akstur og akstur undir áhrifum fíkniefna. Þar að auki kom í ljós að hann hafði áður verið sviptur ökuréttindum. Var hann því handtekinn. Þá var einn ökumaður til viðbótar sektaður þar sem bíllinn sem hann ók reyndist með fjögur nagladekk.

Í dagbók lögreglu segir að þó nokkrar tilkynningar um veikindi, hávaðakvartanir og tilkynningar um fólk í annarlegu ástandi hafi ratað á borð lögreglu. Einnig barst tilkynning um ungmenni sem voru sögð kasta grjóti í rúðu húss. Sá sem þar bjó sagði þau ítrekað aka framhjá húsinu á rafskútu og kasta grjóti í rúðurnar. Engin ungmenni sáust þó á vettvangi.

Leigubílstjóri kallaði eftir aðstoð lögreglu í gærkvöldi vegna vandræða með viðskiptavin. Einnig var beðið um aðstoð vegna einstaklings sem hafði fallið og hlotið áverka á höfði. Sá var fluttur á slysadeild.

Tilkynning barst um eld í iðnaðarhúsnæði í gærkvöldi og var sjúkralið einnig boðað á vettvang. Lögreglunni barst einnig tilkynning um íkveikju í Árbæ en frekari upplýsingar um þau atvik fylgja ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×