Þetta hefur Wall Street Journal eftir heimildarmönnum sínum í ríkisstjórn Bandaríkjanna. CNN fékk svo seinna í dag sömu upplýsingar.
Samkvæmt upplýsingum Bandaríkjamanna hafa Kínverjar boðist til að greiða yfirvöldum á Kúbu nokkra milljarða dala fyrir leyfi til að reisa umrædda njósnastöð. Þessar fregnir eru sagðar hafa vakið áhyggjur innan ríkisstjórnar Joe Biden, forseta Bandaríkjanna.
John Kirby, talsmaður þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna, vildi ekkert segja um þessa tilteknu frétt WSJ, heldur sagði hann yfirvöld Bandaríkjanna meðvituð um að Kínverjar væru að fjárfesta í innviðum ríkja víða um heim og í sumum tilfellum með hernaðarlegum tilgangi. Það væri einnig að gerast í nágrenni Bandaríkjanna.
CNN segir að Bandaríkjamenn hafi komist á snoðir um samkomulagið á undanförnum vikum og að óljóst sé hvort bygging njósnastöðvarinnar sé hafin.
Þetta yrði ekki í fyrsta sinn sem Kínverjar ættu í njósnum sem þessum í Norður-Ameríku. Frægasta tilfellið er þegar njósnabelgur, sem talinn er hafa verið sett á loft af Kínverjum, sveif yfir meginlandi Bandaríkjanna í febrúar. Ráðamenn í Bandaríkjunum segjast hafa komið í veg fyrir að hægt hafi verið að nota belginn til njósna og var hann skotin niður um leið og hann sveif yfir sjó.
Mikil spenna
Mikill spenna er á milli Bandaríkjanna og Kína en hún hefur aukist mjög á undanförnum árum. Hana má að miklu leyti rekja til ólöglegs tilkalls Kínverja til nánast alls Suður-Kínahafs.
Meðal annars má rekja þá auknu spennu til ólöglegs tilkalls Kína til nánast alls Suður-Kínahafs og til Taívans, sem ráðamenn í Kína hafa heitið að verði sameinað Kína og það með valdi ef svo þurfi.
Sjá einnig: Xi vill stærra hlutverk á alþjóðasviðinu
Bandaríkjamenn eru meðal þeirra sem hafa heitið því að koma Taívan til aðstoðar verði gerð innrás í eyríkið. Það hafa yfirvöld í Japan einnig gert.
Kínverjar hafa staðið í gífurlega umfangsmikilli hernaðaruppbyggingu og nútímavæðingu á undanförnum árum. Yfirmenn herafla Bandaríkjanna hafa varað við því að hernaðargeta Kína vari að nálgast getu Bandaríkjanna.
Biden sendi nýverið Bill Burns, yfirmann Leyniþjónustu Bandaríkjanna, til Peking til viðræðna við ráðamenn þar. Þá mun Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, líklega ferðast til Kína á næstu vikum.
Li Shangfu, varnarmálaráðherra Kína, neitaði þó í síðustu viku að hitta Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Sá fyrrnefndi gagnrýndi Bandaríkjamenn í kjölfarið og sakaði þá um „kaldastríðs-hugsunarhátt“sem hefði gert átök líklegri.
Sjá einnig: Stríð milli Kína og Bandaríkjanna „óbærilegar hörmungar“
Æðstu menn herafla Bandaríkjanna hafa áhyggjur af því að herstöðvar ríkisins í Kyrrahafinu séu berskjaldaðar gagnvart kínverskum eldflaugum. Unnið er að því að dreifa úr vopnum, vistaverum hermanna, stjórnstöðvum og öðrum hergögnum til að gera eldflaugaárásir erfiðari.
Vonast er til þess að með þessu verði ekki hægt að lama heilu herstöðvarnar í tiltölulega fáum árásum, komi nokkurn tímann til átaka milli Kína og Bandaríkjanna.