Í fréttum Stöðvar 2 voru sýndar myndir af hugsanlegu útliti byggingarinnar. Rifjað var upp að á Oddahátíð fyrir tveimur árum lýstu forystumenn Oddafélagsins áformum sínum um endurreisn hins forna höfuðbóls sem menningar- og fræðaseturs samhliða nýrri kirkjubyggingu.
Núna hafa þeir kynnt hugmynd Basalt arkitektastofu að því hvernig slík bygging gæti litið út en taka fram að þetta sé tillaga, hugmynd sem enn sé í þróun. Byggingin myndi bæði þjóna sem ný höfuðkirkja héraðsins en einnig sem tónlistar- og menningarmiðstöð, líkt og Reykholtskirkja í Borgarfirði.
Í þættinum Um land allt um Odda, sem sýndur var á Stöð 2 haustið 2021, lýstu forystumenn Oddafélagsins þeirri skoðun að þar þyrfti bæði stærri kirkju og menningarhús.
„Hérna vantar í raun stærra hús, bæði til tónleikahalds og eins fyrir menningarviðburði,“ sagði Ágúst Sigurðsson, formaður Oddafélagsins.

Hugmynd Basalt arkitekta gerir ráð fyrir kirkju sem jafnframt gæti verið tónleikasalur með fjögurhundruð manna sal sem rúmaði sinfóníuhljómsveit. Athygli vekur að glugginn er hugsaður sem altaristafla með útsýn til tignarlegra fjallanna sem blasa við af Rangárvöllum; Heklu, Tindfjalla og Eyjafjallajökuls.
Húsinu er einnig ætlað að hýsa setur sem kennt yrði við Sæmund fróða þar sem haldið yrði á lofti sögu Odda. Verkefnastjórinn Friðrik Erlingsson sýndi okkur fyrir tveimur árum hugsanlega staðsetningu hússins í hæfilegri fjarlægð frá gömlu kirkjunni.

„Ég held að allir sjái það að þetta er nauðsyn. Þetta þarf að vera til þess að viðhalda og rækta þá minningu og þá menningu sem hér var til staðar á miðöldum,“ sagði Friðrik.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2 frá Oddahátíð sumarið 2021, þegar áformin voru kynnt, en þar kom Sinfónuhljómsveit Suðurlands fram á sínum fyrstu opinberu tónleikum:
Hér má sjá fjögurra mínútna langt myndband Basalt arkitekta af nýrri Oddakirkju og Sæmundarstofu, bæði að utan og innan:
Þáttinn um Odda má nálgast á streymisveitunni Stöð 2+. Hér má sjá kynningarstiklu þáttarins:
Hér má sjá níu mínútna langt myndskeið úr þættinum, um þýðingu Odda fyrir þjóðmenningu Íslendinga:
Forystumenn Oddafélagsins hyggjast gera Odda að ferðamannastað, eins og hér er lýst: