Handbolti

Óðinn Þór öflugur í mara­þon­leik

Smári Jökull Jónsson skrifar
Óðinn Þór Ríkharðsson leikur með Kadetten Schaffhausen og Aðalsteinn Eyjólfsson er þjálfari liðsins.
Óðinn Þór Ríkharðsson leikur með Kadetten Schaffhausen og Aðalsteinn Eyjólfsson er þjálfari liðsins. Samsett/Kadetten

Óðinn Þór Ríkharðsson var öflugur í liði Kadetten Schaffhausen sem tapaði fyrir Kriens í maraþonleik í úrslitaeinvígi svissnesku deildarinnar í handknattleik.

Alls voru 99 mörk skoruð í sannkölluðum maraþonleik Kadetten Schaffhausen og Kriens í einvígi liðanna um svissneska meistaratitilinn í handknattleik. Óðinn Þór Ríkharðsson leikur með Schaffhausen og Aðalsteinn Eyjólfsson er þjálfari liðsins.

Fyrir leikinn í dag var Schaffhausen með 2-0 forystu í einvígi liðanna og gat því tryggt sér meistaratitilinn með sigri í dag. Lengi vel virtust þeir líklegir til þess því liðið var með fimm marka forskot í seinni hálfleiknum.

Heimaliðið var þó sterkt á lokamínútum venjulegs leiktíma, skoraði sjö af síðustu níu mörkum leiksins og knúði fram framlengingu, staðan í leikslok 29-29. 

Eftir fyrri framlengingu var staðan 35-35 og enn var jafnt eftir framlenginu númer tvö, staðan 42-42 og því ekkert annað eftir en vítakastkeppni. Þar náðist loksins að fá fram sigurvegara. Heimalið Kriens hafði betur, vann 50-49 sigur og er því enn á lífi í einvíginu. 

Óðinn Þór skoraði átta mörk í leiknum auk þess að skora í tvígang í vítakeppninni. Liðin mætast næst á heimavelli Schaffhausen á fimmtudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×