Handbolti

Tryggvi og fé­lagar með bakið upp við vegg eftir tap í framlengingu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Selfyssingurinn Tryggvi Þórisson er leikmaður Sävehof.
Selfyssingurinn Tryggvi Þórisson er leikmaður Sävehof. Vísir/Hulda Margrét

Tryggvi Þórisson og félagar hans í Sävehof eru komnir með bakið upp við vegg í úrslitaeinvígi sænska handboltans eftir naumt tveggja marka tap gegn Kristianstad í framlengdum leik í kvöld, 33-31.

Kristianstad og Sävehof höfnuðu í efstu tveimur sætum deildarinnar í vor, Kristanstad varð deildarmeistari og Sävehof hafnaði í öðru sæti.

Heimamenn í Kristianstad skoruðu fyrstu þrjú mörk leiksins í kvöld, en eftir það var allt í járnum. Liðin skiptust á að hafa forystuna og munurinn á liðunum í hálfleik var tvö mörk, staðan 14-12.

Munurinn varð aldrei meiri en tvö mörk það sem eftir lifði leiks, en heimamenn í Kristianstad virtust þó alltaf hálfu skrefi framar. Tryggvi og félagar náðu forystunni einu sinni í seinni hálfleik í stöðunni 16-17, en jafnt var þegar venjulegum leiktíma lauk, 28-28.

Því þurfti að grípa til framlengingar til að skera úr um sigurvegara. Þar reyndust heimamenn sterkari og unnu að lokum tveggja marka sigur, 33-31.

Kristianstad hefur nú unnið tvo leiki af þremur í úrslitaeinvíginu og geta tryggt sér sænska meistaratitilinn með sigri í næsta leik liðanna sem fram fer á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×