„Þetta var fínasti dagur. Mér fannst við bara allt liðið ótrúlega flott í dag. Við vorum samstilltir og þéttir og allir að hjálpa hver öðrum. Þegar allir eru í þessum gír þá auðvitað gengur þetta upp,“ sagði Gísli að leik loknum.
Gísli skoraði seinna mark Mreiðabliks í dag þegar hann fékk boltann á miðjum velli, klobbaði einn og smellti boltanum svo í slána og inn af löngu færi.
„Ég á þetta í vopnabúrinu, en það er orðið svolítið langt síðan ég hef tekið þennan,“ bætti Gísli við.
Eftir nokkuð erfiða byrjun á tímabilinu virðast Blikarnir vera búnir að finna taktinn og liðið hefur nú unnið fimm leiki í röð. Gísli segir það gott veganesti inn í næsta leik liðsins gegn Val og komandi átök í toppbaráttunni.
„Auðvitað ætlum við að vera með í þessari titilbaráttu. Við byrjuðum kannski með einhvern skjálfta í okkur sem var kannski ólíkt okkur. En mér finnst frammistaðan búin að vera stigvaxandi og svo erum við núna búnir að halda hreinu held ég tvo leiki í röð. Þannig að við erum líka að fá færri mörk á okkur sem skiptir virkilega miklu máli,“ sagði Gísli að lokum.