Erica Herman hélt því fram að samingurinn væri ógildur sökum alríkislaga sem sett voru árið 2022 og kveða á um ógildingu þagnarsamninga þegar um er að ræða kynferðislega áreitni eða misnotkun.
Dómarinn sagði Herman hins vegar ekki hafa sýnt fram á að hún hefði verið áreitt eða misnotuð.
Umleitan Herman tengist öðru máli sem hún hefur höfðað á hendur golfstjörnunni, þar sem hún fer fram á að hann greiði henni 30 milljónir dala. Segir hún að hann hafi læst hana úti og meinað henni aðgang að heimili þeirra, eftir að hafa verið plötuð til að pakka í tösku fyrir ferðalag.
Herman segir Woods hafa lofað henni því að hún mætti búa á heimilinu í ellefu ár. Upphæðin sem hún gerir kröfu um jafngildir kostnaðinum við að leigja áþekkt heimili í sex ár.
Herman starfaði áður á veitingastað í eigu Woods en talið er að þau hafi byrjað saman árið 2017 og hætt saman einhvern tímann í fyrra.