Umhverfis-og skipulagsráð Reykjavíkurborgar samþykkti að afgreiða tillöguna í auglýsingu á fundi sínum í morgun. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef borgarinnar. Tillagan verður formlega auglýst á næstunni. Íbúum gefst tækifæri til að koma með ábendingar á auglýsingatíma.
Í tilkynningunni segir að með tillögunni sé verið að festa í sessi núverandi stíga, listaverk og áningarstaði við strandlengjuna og tryggja að útsýni og sjónlínur frá svæðinu út sundin og til fjalla haldist óskert.

Áningarstaður til móts við Kringlumýrarbraut
Segir þar að samkvæmt tillögunni verði heimilt að koma fyrir listskreytingum sem falla vel að umhverfinu. Þá verði gert ráð fyrir því að sjóvarnargarðurinn verði breikkaður út í sjó þar sem þess er þörf með sambærilegum hætti og þegar hefur verið gert við Eiðsgranda og Ánanaust.
Samkvæmt tillögunni verða bílastæði við Sólfarið lögð niður ásamt því að staðsettur verður áningarstaður til móts við Kringlumýrarbraut, og hjólastígur sveigður í kringum hann. Það er meðal annars til þess að bæta öryggi á þessum fjölfarna stað.
Þá er gert ráð fyrir að gróður verði meira áberandi á svæðinu. Gróðursvæðið verði byggt upp með líffræðilega fjölbreytni að leiðarljósi og stuðlað að fjölbreyttri gróðurþekju tegunda sem þrífast við sjávarsíðuna.