Umfjöllun og viðtöl: Valur – Stjarnan 28-32 | Stjörnukonur stálu heimaleiknum í framlengingu

Kári Mímisson skrifar
Úr leik dagsins.
Úr leik dagsins. Vísir/Diego

Valur tók á móti Stjörnunni í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum um Íslandsmeistartitilinn í handbolta kvenna. Leikið var á Hlíðarenda og fóru leikar svo að Stjarnan sigraði 28-32 eftir framlengdan leik.

Fyrri hálfleikur var afar jafn og vel leikinn. Liðin skiptust á að leiða til að byrja með en þegar stundarfjórðungur var liðinn af leiknum náðu Valskonur góðum kafla og komust yfir en Stjarnan var aldrei langt á eftir. Allt benti til þess að Valur færi með tveggja marka forystu inn í leikhléið en Eva Björk Davíðsdóttir skoraði síðasta mark hálfleiksins á loka sekúndunni. Staðan í hálfleik 14-13 fyrir Val.

Síðari hálfleikur byrjaði eins og sá fyrri, liðin skiptust á að skora en aftur eftir stundarfjórðungs leik náði Valur góðum spretti og tóku forystuna 21-18. Stjarnan náði með miklu harðfylgi að jafna leikinn þegar skammt var eftir af venjulegum leiktíma. Þegar mínúta var eftir af leiknum fiskaði Elísabet Gunnarsdóttir víti fyrir gestina sem Lena Margrét Valdimarsdóttir skoraði úr. Valur náði að jafna, 25-25 í næstu sókn þegar Elín Rósa Magnúsdóttir skoraði. Stjarnan náði ekki að nýta sína lokasókn og því þurfti að framlengja.

Það voru gestirnir sem reyndust sterkari í framlengingunni og náðu fljótlega forystunni. Helena Rut Örvarsdóttir skoraði síðasta mark fyrri hálfleiks framlengingarinnar með neglu langt fyrir utan sem sá til þess að Stjarnan færi inn í seinni hálfleik framlengingarinnar einu marki yfir og með boltann. Svo fór að lokum að Stjarnan kláraði leikinn í seinni hálfleik framlengingarinnar og tryggði sér afar sætan sigur á Val. Lokatölur 28-32 fyrir gestina úr Garðabæ.

Markahæst í liði Stjörnunnar var Lena Margrét Valdimarsdóttir með 8 mörk úr 14 skotum en hjá heimakonum voru það þær Þórey Anna Ásgeirsdóttir, Mariam Eradze og Elín Rósa Magnúsdóttir sem gerðu allar 6 mörk.

Darija Zecevic átti góðan leik fyrir Stjörnuna og varði 15 bolta (35 prósent) en hjá Val varði Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir 17 bolta (35 prósent)

Af hverju vann Stjarnan?

Þessi leikur hefði getað endað hvoru meginn sem er. Valur átti sennilega að klára þetta í venjulegum leiktíma og voru á löngum köflum betra liðið. Stjörnustelpur voru hreinlega betri á lokakaflanum og klárlega betri aðilinn í framlengingunni.

Hverjar stóðu upp úr?

Ofboðslega margar góðar í dag. Lena Margrét var þó fremst meðal jafningja í dag. Átta mörk hennar er það sem tryggði liðinu þetta ásamt því átti hún frábæran leik í vörninni.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur beggja liða var oft mjög einfaldur og treysti mikið á einstaklingsframtök oft á tíðum. Mikið af erfiðum skotum sem markverðirnir áttu ekki í miklu vandræðum með eða enduð langt frá markinu.

Hvað gerist næst?

Næsti leikur er á sjálfan Verkalýðsdeginum og hefst hann klukkan korter yfir fjögur. Stjarnan er komin í 1-0 forystu í þessu einvígi eftir þennan geggjaða leik í dag og það er vægast sagt spennandi að sjá hvernig Valur svara þessu.

Hrannar: Ég var pollrólegur

Hrannar Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar.Vísir/Diego

„Ég er hrikalega ánægður með sigurinn. Eitt núll fyrir okkur sem er frábært. Við vorum ógeðslega góðar í dag, spiluðum leikinn vel og náðum í flottan sigur,” sagði kampakátur Hrannar Guðmundsson eftir sigurinn í dag.

Hvað þurfið þið að skoða fyrir næsta leik?

„Við þurfum bara að fara vel yfir þetta. Við spiluðum flotta vörn og sóknarleik á köflum alveg eins og Valur gerði líka. Við þurfum að fókusera á góðu partana og skoða það sem við þurfum að laga.”

Taugarnar voru vel spennar hjá flestum hér á Hlíðarenda í dag í þessum háspennu leik en hvernig voru taugarnar hjá þjálfaranum hér í lokin?

„Það var hrikalega gott. Ég var pollrólegur,” sagði Hrannar Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir leik við Vísi.

Ágúst: Eitt og annað sem vð getum lært af þessum leik

Ágúst Jóhannsson, þjálfari Vals.Vísir/Diego

„Maður er auðvitað bara svekktur. Þetta var hörku handboltaleikur og á stórum köflum bara mjög góður leikur þar sem vel var tekist á. Þetta féll ekki okkar megin og það er auðvitað svekkjandi.”

„Það er auðvitað fullt sem við getum tekið með, gert betur og lagað. Við skjótum illa á markið og förum illa með góð færi. Við erum klaufar á köflum varnarlega. Það er svona eitt og annað sem við getum lært af þessum leik og getum fínpússað fyrir leikinn á mánudaginn.” Sagði Ágúst Þór Jóhannsson eftir leikinn.

Valur hafði fyrir leikinn í dag ekki spilað í 29 daga. Leikformið var því mögulega ekki eins gott og hjá Stjörnunni sem hafði leiki á sama tíma þrjá leiki við Þór/KA. Var það eitthvað sem hafði áhrif á ykkur?

„Ég held nú ekki. Við náðum að rúlla ágætlega á liðinu. Í fyrri hálfleik erum við með átta tæknifeila og töpum alveg aragrúa af einföldum boltum sem þær refsa okkur með hraðaupphlaupum. Fyrir mitt leyti hefðum við getað verið yfir með þremur til fjórum mörkum í hálfleik. Mér fannst við aðeins sterkari í fyrri hálfleik en svo var þetta bara járn í járn í þeim seinni og þær voru bara seigar á síðustu mínútunum.”

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira