Frá þessu greinir á Facebook-síðu slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu.
Enn logar í sinunni í hrauninu, enda erfitt að komast að. Staðan verði tekin þegar líður á morguninn og næstu skref ákveðin.
Dælubílar hafi farið í fjögur önnur verkefni á síðasta sólahring og sjúkrabílar sinnt 100 sjúkraflutningum.
Vísir greindi frá því í gær að tilkynning hefði borist um sinubruna við Straumsvík rétt eftir klukkan 13 í gær en upptök hans mætti rekja til fikts nemenda í Menntaskólanum í Kópavogi með svokallað kúlublys.
Settar voru upp varnarlínur til að takmarka útbreiðslu eldsins og þá náðist að bjarga tveimur húsum.
„Það er gríðarlega þurr jarðvegur hérna og svo blæs mikið, þetta er búið að vera mjög erfitt og krefjandi,“ sagði Finnur Hilmarsson varðstjóri í kvöldfréttum Stöðvar 2.