Í fréttum Stöðvar 2 kom fram að uppbygging bæði kalkþörungavinnslu og fiskeldis hafi leitt til mikillar grósku á Bíldudal. Þannig lét Íslenska kalkþörungafélagið byggja átta íbúða hús á Bíldudal fyrir fimm árum. Mikill vöxtur fiskeldis knýr á um enn fleiri íbúðir en Arnarlax er núna langfjölmennasti vinnustaðurinn þar, með milli 120 og 130 starfsmenn.

„Það er mjög mikilvægt að hafa stað til að búa á. Við verðum að reyna að fá fleiri íbúðir fyrir fólk á svæðinu. Það er afar mikilvægt,“ segir Björn Hembre, forstjóri Arnarlax.
Það var síðast árið 1979 sem Bílddælingar sáu svo stóra blokk rísa í plássinu. Sveitarfélagið Vesturbyggð stendur að húsbyggingunni í samstarfi við Arnarlax og byggingafélagið Hrafnshól. Íbúðirnar verða ýmist seldar á markaði eða boðnar til leigu í gegnum Leigufélagið Bríeti.

Tíu íbúðir eru í nýja húsinu, bæði tveggja herbergja og þriggja herbergja, og verða þær afhentar fullbúnar um mánaðamótin maí-júní. Staðsetning hússins við fjöruborðið vekur athygli.
„Já, þetta er besta lóðin í bænum. Þetta er afar fallegur staður.
Þarna er rými fyrir fleiri íbúðir. Það verður næsta skrefið vonandi að við höldum áfram að byggja,“ segir Björn.

Þegar er farið að huga að öðru samskonar húsi, svo mikil er þörfin.
„Já, það er mikil þörf og sérstaklega hér á Bíldudal.
Margir starfsmenn búa á Tálknafirði og Patreksfirði sem gjarnan myndu vilja búa á Bíldudal. Það er því áfram mikil þörf fyrir íbúðir,“ segir forstjóri Arnarlax.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: