Innlent

Lögreglan telur sprengjuhótun í ráðhúsi Reykjanesbæjar ótrúverðuga

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Sprengjuhótun barst ráðhúsinu í tölvupósti í morgun.
Sprengjuhótun barst ráðhúsinu í tölvupósti í morgun. Vísir/Þorgils

Tilkynning barst með tölvupósti á almennt netfang Reykjanesbæjar í morgun um að búið væri að koma þar fyrir sprengjum. Lögregla segir hótunina ekki trúverðuga. 

Tilkynning um hótunina barst lögreglu um klukkan tíu en þá höfðu starfsmenn rýmt húsið. Um eitt hundrað starfa í ráðhúsinu samkvæmt frétt Víkurfrétta, sem greindu fyrst frá. Þar segir að hótunin hafi verið skrifuð á ensku. 

Þetta staðfestir Sölvi Rafn Rafnsson aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurnesjum í samtali við fréttastofu. Vegna innhalds póstsins telji lögreglan hótunina ekki trúverðuga. Samt sem áður hafi sérsveit ríkislögreglustjóra verið kölluð til og leitar hún nú af sér allan grun í húsinu með aðstoð sprengjuleitarhundar. 

Að sögn Sölva mun lögregla rannsaka hvaðan sprengjuhótunin barst. 

Veistu meira um málið? Vísir tekur við öllum ábendingum, ljósmyndum og myndskeiðum á ritstjorn@visir.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×