Erik ten Hag hefur gert frábæra hluti með United eftir að hann tók við liðinu í sumar. Í gær sló United Barcelona út úr Evrópudeildinni, 4-3 samanlagt. Schmeichel var á leiknum fyrir BBC og hrósaði Ten Hag í hástert eftir hann.
„Það hefur tekið tíu ár að komast á þennan stað. Mér finnst allt geta gerst á þessu tímabili,“ sagði markvörðurinn goðsagnakenndi.
„Manchester United getur unnið allt eða ekkert en við höfum séð framþróun. Erik ten Hag hefur tekist á við allar stöður sem upp hafa komið eins og góður stjóri ætti að gera. Eins og Sir Alex Ferguson upp á sitt besta. Ég sit hér og hugsa: vá, við erum með rétta manninn.“
Ten Hag getur unnið sinn fyrsta titil sem stjóri United þegar liðið mætir Newcastle United í úrslitum deildabikarsins á sunnudaginn. United hefur ekki unnið titil í sex ár.