Þægi­legt hjá Liver­pool gegn New­cast­le

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gaman saman.
Gaman saman. EPA-EFE/Peter Powell

Liverpool vann 2-0 útisigur á Newcastle United í síðasta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Leikurinn gat vart byrjað betur fyrir gestina frá Bítlaborginni en eftir tíu mínútna leik hafði Darwin Núñez komið boltanum í netið eftir sendingu Trent Alexander-Arnold. Aðeins sjö mínútum síðar tvöfaldaði Cody Gakpo. Að þessu sinni var það Mohamed Salah sem lagði markið upp.

Á 22. mínútu leiksins má svo segja að sigur Liverpool hafi endanlega verið gulltryggður. Alisson spyrnti þá fljótt frá marki sínu og Nick Pope, markvörður Newcastle, sá engan annan kost í stöðunni en að koma úr vítateig sínum til að stöðva sendingu kollega síns.

Pope reyndi að skalla boltann með þeim afleiðingum að hann datt hálfpartinn ofan á hann og tók hann með höndum, fyrir utan vítateig. Slíkt er bannað og var Pope rekinn af velli.

Segja má að við það hafi leiknum hafi í raun verið lokið en hvorugt lið bætti við marki það sem eftir lifði fyrri hálfleiks né í þeim síðari. Lokatölur í Norður-Englandi því 0-2 og Liverpool fer heim með stigin þrjú. Um var að ræða fyrsta tap Newcastle á heimavelli á leiktíðinni.

Sigurinn lyftir Liverpool upp í 8. sæti með 35 stig á meðan Newcastle er í 4. sæti með 41 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira