Fjöldi látinna í bæði Tyrklandi og Sýrlandi er kominn yfir 37 þúsund, samkvæmt Reuters, og mun að líkindum hækka enn frekar á komandi dögum. Þann 6. febrúar varð 7,8 stiga skjálfti á svæðinu og nokkrum klukkustundum síðar varð annar skjálfti sem varð 7,5 stig. Mikill fjöldi eftirskjálfta hefur einnig greinst á svæðinu.
Minnst 41.500 byggingar eru ónýtar í Tyrklandi.
AP fréttaveitan segir átján ára mann hafa fundist í Adiyaman héraði en erfiðlega gekk að ná honum úr rústunum. Hann fékk næringu í æð áður en björgunarmenn byrjuðu að fjarlægja brak en rústirnar voru mjög óstöðugar. Hann hafði legið í rústunum í tæpar 199 klukkustundir þegar honum var bjargað.
Þá var tveimur bræðrum, 17 og 21 árs, bjargað úr rústum húss í Kahramanmaras, nærri uppruna fyrsta jarðskjálftans. Þeir höfðu legið í rústunum í um 198 klukkustundir. Þeir voru fluttir á sjúkrahús en heilsuástand þeirra liggur ekki fyrir.
198 saat sonra Ad yaman dan bir mucize haberi daha geldi.
— TRT Haber Canl (@trthabercanli) February 14, 2023
18 ya ndaki Muhammed Cafer Çetin ekipler taraf ndan enkazdan kurtar ld . pic.twitter.com/SsZD4Atx88
Leitaraðilar eru að draga saman seglin og er áherslan í viðbrögðunum við jarðskjálftunum að færast yfir á að sinna þeim sem hafa í engin hús að venda. Margir hafa þurft að sofa undir berum himni en mjög kalt hefur verið á svæðinu. Til viðbótar við kuldann eru innviðir mjög skemmdir og hafa margir ekki aðgang að hreinu vatni.
Neyðaraðstoð er byrjuð að berast á svæðið og til Sýrlands þar sem Bashar al Assad, forseti, hefur opnað tvær landamærastöðvar til viðbótar svo að aðstoð geti borist til yfirráðasvæðis uppreisnar- og vígamanna í norðurhluta landsins.
Yfirmaður aðstoðarstarfs Sameinuðu þjóðanna í Aleppo í Sýrlandi, sagði í morgun að björgunarstarfi þar væri að ljúka og nú yrði áherslan lögð á að huga að fólki á svæðinu.