Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær var rætt við þau Sverri Örn Leifssonog Dalrós Líndal Þórisdóttir sem fengu úthlutaða lóð í Reykjanesbæ árið 2017. Teikningar voru samþykktar af byggingafulltrúa og framkvæmdir hófust. Átján mánuðum eftir upphaf framkvæmda tilkynnti byggingafulltrúinn að teikningarnar, sem hann hafði samþykkt væru ekki í samræmi við deiliskipulag og framkvæmdir voru stöðvaðar.
Fjölskyldan fór með málið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem taldi sveitarfélagið heimilt að stöðva framkvæmdirnar. Hún leitaði þá til Umboðsmanns Alþingis sem í áliti sínu fellir ákveðinn áfellisdóm yfir vinnubrögðum sveitarfélagsins og úrskurðanefndar.
Síðan þá hefur sveitarfélagið gefið fjölskyldunni grænt ljós að halda framkvæmd áfram en með þeim skilyrðum að hún afsali sér rétt til skaðabóta og gangist í ábyrgð með sveitarfélaginu verði nágrannar fyrir tjóni.
Hátt í tuttugu hús í hverfinu stangast á við gildandi deiluskipulag en Sverrir og Dalrós þau einu sem hafa þurft að hætta framkvæmdum og fá ekki að flytja inn.
Engin svör hafa fengist hjá sveitarfélaginu vegna málsins. Fréttastofa hefur ekki náð tali af byggingafulltrúanum þrátt fyrir ítrekuð símtöl. Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri, vildi ekki veita viðtal vegna málsins og sagðist í skrifelgu svari ekki geta rætt það á meðan það er til meðferðar.
Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, forseti bæjarstjórnar í Reykjanesbæ sagðist í samtali við fréttastofu ekki geta tjáð sig um málið. Aðspurð hvers vegna sagðist hún ekki geta tjáð sig um það.
Ætlar bærinn ekki að svara neinu um þetta?
„Eins og ég segi get ég bara ekki tjáð mig um þetta mál,“ segir Halldóra.
Hvert á maður þá að leita svara?
„Ég bara get ekki svarað því heldur.“
Hlusta má á viðtalið við Halldóru í spilaranum hér að neðan. Fréttin hefst á 8:43.