Erlent

Fleiri en 600 hand­teknir í að­gerðum gegn heimilis­of­beldi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögreglan í Nýju Suður-Wales hefur hrundið af stað átaki gegn heimilisofbeldi.
Lögreglan í Nýju Suður-Wales hefur hrundið af stað átaki gegn heimilisofbeldi. Getty

Fleiri en 600 einstaklingar hafa verið handteknir og ákærðir eftir fjögurra daga lögregluaðgerð í Ástralíu sem beindist gegn heimilisofbeldi. Meðal handteknu voru 164 einstaklingar sem lögregla segir hafa verið „mest eftirlýstu“ ofbeldismenn landsins.

Lögregluaðgerðin, sem bar yfirskriftina „Operation Amarok“, fór fram í Nýju Suður-Wales og lagði lögregla meðal annars hald á ólögleg vopn og fíkniefni. Meðal þeirra sem voru handteknir voru einstaklingar sem höfðu komið sér undan handtökuskipunum og sem höfðu brotið gegn nálgunarbönnum.

Heimilisofbeldi er gríðarstórt vandamál í Ástralíu og sá málaflokkur sem krefst jafnan mestrar athygli og tíma lögreglu. Nú hefur verið mörkuð ný stefna sem gengur út á að fjarlægja brotamenn úr umferð og grípa þannig inn í áður en ofbeldið endar með dauðsfalli.

Sautján voru myrtir í Ástralíu í fyrra í kjölfar heimilisofbeldis.

Einn af hverjum fimm Áströlum eldri en 15 ára segist hafa upplifað líkamlegt eða kynferðislegt ofbeldi á heimili sínu. Flest brot eru framin af körlum gegn konum og Sameinuðu þjóðirnar segja ofbeldi gegn konum í Ástralíu sláandi algengt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×