Enski boltinn

Man United samdi við tvo leik­menn í dag

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Estelle Cascarino er gengin í raðir Man United út tímabilið.
Estelle Cascarino er gengin í raðir Man United út tímabilið. Manchester United

Lið Manchester United í ensku úrvalsdeild kvenna í fótbolta styrkti leikmannahóp sinn til muna í dag þegar liðið samdi við tvo leikmenn. Önnur kemur á láni frá franska liðinu París Saint-Germain á meðan hin kemur frá Kanada.

Þó Man United sé með bestu vörn ensku úrvalsdeildarinnar ásamt Arsenal – sex mörk á sig í 10 leikjum – hefur Marc Skinner, þjálfari liðsins, samt ákveðið að auka breiddina í varnarlínu liðsins. Liðið samdi í dag við tvo varnarmenn sem eiga að hjálpa liðinu í baráttunni um enska meistaratitilinn.

Hin 25 ára gamla Estelle Cascarino kemur á láni frá PSG en hún skrifaði undir þriggja ára samning við Parísarliðið í júlí 2021. Hún mun nú leika með Man United út leiktíðina þar sem tækifærin hafa verið af skornum skammti hjá PSG að undanförnu.

Cascarino á að baki 5 A-landsleiki fyrir Frakkland ásamt því að hafa leikið fyrir öll yngri landsliðin á sínum tíma.

Jayde Yuk Fun Riviere, sem verður 22 ára á morgun – sunnudag, leikur vanalega sem bakvörður og lék síðast með Michigan Wolverines í bandaríska háskólaboltanum. Hún gekkst undir aðgerð í september og hefur nú náð sér að fullu.

Riviere er þrátt fyrir ungan aldur reynslumikil landsliðskona sem hefur spilað 36 leiki fyrir A-landslið Kanada og varð til að mynda Ólympíumeistari með liðinu árið 2020.

Manchester United er í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 25 stig að loknum 10 leikjum líkt og Arsenal. Bæði lið eru þremur stigum á eftir toppliði Chelsea en eiga leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×