Menntaverðlaun Suðurlands fyrir árið 2022 voru afhent í vikunni á sérstakri hátíðarathöfn í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi en verðlaunin eru veitt af Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga. Níu tilnefningar bárust um Menntaverðlaun Suðurlands og var það samdóma álit sérstakrar nefndar í kringum verðlaunin að þau skyldu fara til Tónlistarskóla Árnesinga. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands afhenti verðlaunin.
Helga Sighvatsdóttir, skólastjóri er að vonum ánægð.
„Þetta er náttúrulega bara dásamlegt. Í rauninni erum við að taka við viðurkenningu fyrir hönd 40 starfsmanna og kennara skólans, þannig að það er það öfluga fólk og kennarar, sem í rauninni skapa þetta,“ segir Helga.
„Við erum með mjög fjölbreytt starfsemi og allskonar tónlistarhald. Nemendur eru að koma fram mjög víða og við erum með litla tónleika, stóra tónleika, svæðaskipta tónleika, þematónleika, þannig að þeir eru af ýmsum gerðum og stærðum,“ bætir Helga við.
Skólinn stendur einnig fyrir öflugu menningarstarfi í Árnessýslu og leggur jafnframt mikla áherslu á að tengjast samfélaginu. Má í því sambandi nefna að kennarar heimsækja alla grunnskóla í sýslunni fimm sinnum á hverju vori til að kynna nemendum hin margvíslegustu hljóðfæri.
En hvernig verður árið 2023?
„Það verður örugglega mjög gott. Við erum náttúrulega komin út úr Covidinu og förum að geta verið núna með okkar starfsemi í eðlilegu horfi og næstu viðburður er Dagur tónlistarskólanna í byrjun febrúar þar sem við verðum með sex tónleika um alla Árnessýslu,“ segir Helga.
