Innlent

Fluttur á sjúkrahús vegna stunguárásar

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Frá vettvangi stunguárásarinnar í Þverholti í Mosfellsbæ eftir að viðbragðsaðilar mættu þangað.
Frá vettvangi stunguárásarinnar í Þverholti í Mosfellsbæ eftir að viðbragðsaðilar mættu þangað. aðsend

Maður var fluttur á Landspítalann á tíunda tímanum í gærkvöldi vegna alvarlegs stungusárs sem hann hlaut í Þverholti í Mosfellsbæ. 

Ríkisútvarpið greinir frá því að áverkarnir hafi verið svo alvarlegir að lögregla hafi verið fengin til þess að loka gatnamótum fyrir annarri umferð til að greiða för sjúkrabílsins sem mest. Ekki náðist í lögreglu við vinnslu fréttarinnar og því ekkert vitað nánar um líðan mannsins.

Í tilkynningu frá lögreglu vegna verkefna síðasta sólarhrings er ekki greint frá stunguárásinni. Þar segir hins vegar frá tilkynningu um mann sem var vopnaður hnífi fyrir utan verslun, lögregla hafi farið á staðinn en að enginn hafi verið sjáanlegur sem passaði við þá lýsingu þegar lögreglu bar að garði. 

Þá er einnig greint frá ökumanni sem var stöðvaður vegna aksturs undir áhrifum áfengis. Sá streittist á móti handtöku og þurfti að yfirbuga þann mann á vettvangi áður en hann var fluttur á lögreglustöð.

Í austurhluta borgarinnar var aðstoðar lögreglu óskað vegna ofurölvi manns í samkvæmi og elds í ruslagámi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×